154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, það eru þessar eilífu spár sem enda einhvern veginn í langtímameðaltali og langtímameðaltalið virðist vera langt undir í rauninni alvörulangtímameðaltali, sem er allt í lagi að vissu leyti. Varfærni er gott grunngildi í lögum um opinber fjármál og það er svona það helsta sem ég var að kalla einmitt eftir, eins góð og mér finnst lögin um opinber fjármál vera er ekki alveg nægilega vel farið eftir þeim, sérstaklega varðandi kostnaðarábatagreiningu og forgangsröðunina sem er ekki eins gagnsæ og vera vildi. Dómsmálaráðuneytið talaði t.d. um það á síðasta þingi að upplýsingar sem Landhelgisgæslan sendir dómsmálaráðuneytinu séu trúnaðarupplýsingar þegar það varðar einmitt svona fjármálabeiðnir o.s.frv., sem mér finnst alveg stórkostlega skrýtið. Ég átta mig ekki á því hvernig það getur gengið upp. Það hlýtur að varða upplýsingalög þegar ein stofnun sendir til annarrar upplýsingar um stöðuna varðandi fjárhagsbeiðnir og þess háttar.

Jú, jú, það hafa verið skref en þau eru ekki mörg og ekki stór. Eitt af þeim grundvallaratriðum sem ég hef verið að reyna að kalla eftir á undanförnum árum í gegnum t.d. fyrirspurnir mínar varðandi kostnað á lögbundnum verkefnum er að í stöðu okkar hérna sem þingmenn á Alþingi, þegar við erum að samþykkja hin og þessi frumvörp, um réttindi fatlaðs fólks t.d., um almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu og hvað það nú er, virðist kostnaðarmatið þar á bak við ítrekað vera bara verulega lélegt, mjög oft innan ramma, sem er gjörsamlega gagnslaust fyrir okkur. Nei, að sjálfsögðu kostar það ekkert innan ramma, það kostar eitthvað. Hversu mikið og hvað annað hliðrast til í staðinn er spurning sem við hljótum að þurfa að vilja svara, því að ef við höfum ekki yfirsýn yfir hvað það kostar að framfylgja þeim lögum sem við setjum hérna þá getum við ekkert verið að samþykkja hér fjárlög. Það er bara engin forsenda fyrir því að geta svarað því (Forseti hringir.) hvort þessi fjárlög uppfylla lög og skyldur sem við höfum sett hérna á stjórnvöld til þess að sinna þjónustu við fólkið í landinu. (Forseti hringir.) Það er vandinn sem ég sé við þessi fjárlög eins og öll.